
Skallagrímur með öruggan sigur á Þrótti Vogum
Skallagrímur og Þróttur Vogum tókust á í 1. deild karla í körfuknattleik á laugardaginn og var leikurinn í Fjósinu í Borgarnesi. Fresta þurfti leiknum kvöldið áður vegna slæmra veðurskilyrða en allt var dottið í dúnalogn á laugardeginum og leikmenn klárir í slaginn. Þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 11:7 Skallagrími í vil en gestirnir voru betri seinni hluta fyrsta leikhluta og fóru með þriggja stiga forskot inn í annan leikhluta, staðan 16:19 fyrir Þrótti. Þar byrjuðu þeir betur og leiddu ávallt með nokkrum stigum þar til heimamenn náðu að jafna metin þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks, staðan 34:34. Þeir fylgdu því síðan eftir og munurinn var sex stig þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 45:39 fyrir Skallagrími.