
Þorramót í Ringó var spilað í Borgarnesi
Sunnudaginn 28. janúar sl. fór fram í Íþróttahúsinu í Borgarnesi þorramót í ringó. Alls mættu til leiks átta lið; eitt frá HSK, tvö frá Glóðinni/Kópavogi, eitt frá FaMos/Mosfellsbæ, tvö frá USVH/ Vestur – Húnvetningar og tvö lið frá heimamönnu í UMSB. Allir léku við alla og því voru spilaðir 28 leikir þar sem spilað var uppí 21 stig. Að sögn Flemming Jessen mótshaldara var keppni spennandi og drengilega leikin. Þar sem aðeins er einn völlur í íþróttahúsinu tók keppnin dágóðan tíma. Á meðan á keppni stóð gátu keppendur hresst sig á ávöxtum, kaffi og ýmsu öðru góðgæti, sem ringófélagar sáu um. Að loknum síðast leik og baði fengu keppendur hressingu; súpu, brauð og álegg, kaffi og súkkulaðibita auk þess sem úrslit mótsins voru kynnt. „Þakka ber starfsfólki íþróttahúsins fyrir gott viðmót og hjálp svo og konunum; Kristínu Ingibjörgu, Rannveigu og Sigrúnu sem sáu um veitingarnar,“ segir Flemming.