Fréttir
Jarðlangsstaðir. Ljósm. Mats Wibe Lund

Vilja fella afleggjarann að Jarðlangsstöðum af vegaskrá

Vegagerðin hefur tilkynnt Borgarbyggð að til standi að taka Stangarholtsveg á Mýrum (5345-01) af vegaskrá. Samkvæmt vegaskrá er þessi hluti Stangarholtsvegar afleggjarinn að bænum Jarðlangsstöðum, að undanskildum síðustu 50 metrunum að íbúðarhúsinu á bænum. Um er að ræða nokkra tugi metra. Bendir Vegagerðin á í erindi sínu að héraðsvegir eru skilgreindir sem vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis. Þeir eru ákveðnir í staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Landeigandi skal þó kosta og vera veghaldari síðustu 50 metra að framangreindum stöðum ef vegur endar þar. Jafnframt er heimilt að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja að minnsta kosti 30 bústaði við þjóðveg. Vegagerðin bendir í erindi sínu á að ekki er lengur lögheimili eða atvinnurekstur á Jarðlangsstöðum og uppfyllir vegurinn því ekki tilgreint skilyrði þess að teljast til þjóðvega. Með vísan til þess áformar Vegagerðin nú að fella veghlutann af vegaskrá frá og með næstu áramótum og mun viðhald og þjónusta vegarins ekki lengur vera á ábyrgð Vegagerðarinnar eftir þann tíma.

Vilja fella afleggjarann að Jarðlangsstöðum af vegaskrá - Skessuhorn