Íþróttir
Aamondae Coleman skoraði 34 stig gegn Þrótti Vogum. Ljósm. Gunnar Jónatansson/karfan.is

Skagamenn komu til baka og náðu góðum sigri

ÍA og Þróttur Vogum mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum. Það gekk ekki vel hjá heimamönnum í byrjun leiks því eftir að hafa skorað fyrstu körfu leiksins þá komust þeir ekki á blað í næstum fjórar mínútur og stigataflan sýndi eitthvað kunnuglegt úr fortíðinni, staðan 2:14. Þróttarar náðu síðan 16 stiga forystu, 11:27, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta en Skagamenn náðu síðan 10-4 kafla og staðan 21:31 gestunum í hag. Lítið gekk hjá þeim gulu að minnka forskotið því eftir fimm mínútna leik í öðrum leikhluta eftir þriggja stiga körfu frá Alex Rafni Guðlaugssyni sem á ættir að rekja til Ólafsvíkur var staðan 30:44 fyrir Þrótti. En þá kom loksins ágætis kafli hjá heimamönnum og þeir náðu hægt og rólega að saxa á forskotið og munurinn var kominn niður í fimm stig þegar flautað var til hálleiks, staðan 46:51.