
Þjóðgarðsmiðstöðin á Hellissandi.
Opnar sýningu í nýju Þjóðgarðsmiðstöðinni
Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður mun opna sýninguna INNÍ / INSIDE í nýju þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi laugardaginn 13. janúar kl. 14:00. Sýningin mun standa til 21. apríl í vor og verður opin á opnunartíma þjóðgarðsmiðstöðvarinnar, eða daglega frá kl. 10:00 til 16:00. Í tilkynningu segir að steinaríkið, efnisheimurinn, jarðsögulegar tilvitnanir og menningarminjar séu grunnþemu í verkaröð sem Guðrún hefur unnið að á síðastliðnum tveimur árum og er sýningin INNÍ önnur í röð sýninga þar sem allt snýst um tímann, það sem okkur er ósýnilegt og í raun ofar okkar skilningi, þar sem allt á upptök sín og allt endar.