
Þrettánda tap Snæfells kom á móti Stjörnunni
Stjarnan og Snæfell áttust við í Subway deild kvenna í körfuknattleik á þriðjudagskvöldið og var leikurinn í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ. Þremur dögum áður höfðu liðin mæst á sama stað í VÍS bikarnum þar sem Stjörnukonur unnu öruggan 83:50 sigur og ljóst að verkefnið yrði erfitt hjá gestunum úr Stykkishólmi. Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust á að ná forystu. Stigaskorið var ekki mikið hjá liðunum, eftir tæpan fimm mínútna leik var staðan 7:4 fyrir Stjörnunni og þremur stigum munaði einnig þegar heyrðist í flautunni, staðan 17:14. Lítill getumunur var á liðunum í öðrum leikhluta, Stjörnukonur voru þó aðeins skrefinu á undan og náðu sjö stiga forskoti um miðja vegu þegar Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði níu stig í röð á innan við einni mínútu, staðan 30:23. En Mammusu Secka tók þá til sinna ráða og skoraði sjö stig fyrir Snæfell á skömmum tíma áður en Shawnta Shaw kom Snæfelli yfir í leiknum með þriggja stiga körfu þegar rúm mínúta var til hálfleiks. Staðan 40:41 í hálfleik fyrir Snæfelli og frekar óvænt staða miðað við gengi liðanna í deildinni.