
Skrifað undir samning um kaup La Dolce Vita á félagsheimilinu á Staðarfelli
Fyrirtækið La Dolce Vita ehf., sem er í eigu Baldurs Ingvarssonar staðarhaldara á Staðarfelli á Fellsströnd í Dölum, hefur nú fest kaup á félagsheimilinu að Staðarfelli. Samningur var undirritaður föstudaginn 8. desember. Seljendur eru Dalabyggð, Kvenfélagið Hvöt og Ungmennafélagið Dögun. Félagsheimilið að Staðarfelli hefur verið miðpunktur og grundvöllur félagslífs á Fellsströndinni um áratugaskeið. Þar hefur ávallt ríkt góður andi og margar góðar minningar eru frá skemmtilegum stundum og góðu fólki. Að sögn Baldurs fela kaupin meðal annars í sér að Ungmennafélaginu Dögun á Fellsströnd er heimiluð afnot af Félagsheimilinu að Staðarfelli til að halda þorrablót, kóræfingar, söngskemmtanir, félagsfundi og annað menningarstarf sveitarinnar hverju sinni í fullu samráði og samstarfi við nýjan eiganda.