Íþróttir
Darius Banks (5), Marinó Þór (7) og Björgvin Hafþór (9) voru atkvæðamestir í leiknum fyrir Skallagrím. Ljósm. glh

Skallagrímur vann ÍA í jöfnum leik

Það var stuð og býsna góð stemning eins og oftast þegar lið Skallagríms og ÍA áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið. Yfir tvö hundruð manns mættu í Fjósið í Borgarnesi til að horfa á Vesturlandsslaginn og styðja við bakið á sínum mönnum. Þeir fengu eitthvað fyrir peninginn og snúðinn því leikurinn var spennandi frá byrjun til loka enda mikið undir og þá aðallega stoltið en þó kannski sérstaklega að fá að halda montréttinum fram yfir jól og áramót. Þetta byrjaði með látum, liðin skiptust á að ná forystu og staðan 11:13 fyrir gestina um miðjan fyrsta leikhluta. Það var ekkert gefið eftir og Darius Banks sá til þess að staðan var hnífjöfn eftir fyrsta fjórðung, 20:20, þegar hann skoraði sex sekúndum fyrir flautið. Lucien Christofis setti niður þrist fyrir ÍA í byrjun annars leikhluta en þá hrukku heimamenn í gang og skoruðu níu stig í röð. Þeir fylgdu þessu síðan vel eftir og voru komnir með tíu stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, staðan 41:31 og Skallarnir í ansi góðum málum.

Skallagrímur vann ÍA í jöfnum leik - Skessuhorn