
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu tillögur ráðherranefndarinnar í dag. Ljósm. Stjórnarráðið
Ráðherranefnd um verndun íslenskrar tungu kynnir aðgerðaáætlun
Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi á næstu dögum. Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnti í dag tillögur sínar að alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar. Nefndin var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Henni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.