
Fjölnir GK og Sturla GK liggja við landfestar á meðan sitt hvort löndunargengið er að landa úr þeim. Texti og myndir: TFK
Grindavíkurbátar landa í Grundarfirði
Það var mikið um að vera á höfninni í Grundarfirði mánudaginn 27. nóvember þegar hver báturinn á fætur öðrum kom inn til löndunar. Jóhanna Gísladóttir GK 357 kom aðfararnótt mánudags og fór aftur um morguninn. Verið var að landa úr Fjölni GK 157 og Sturlu GK 12 á meðan fréttaritari var á svæðinu. Svo var Pálína Þórunn GK 49 væntanleg með kvöldinu til löndunar. Auk þessara báta var Farsæll SH á leið til hafnar þannig að nóg var um að vera. Megnið af aflanum hjá bátunum úr Grindavík fer í vinnsluna hjá Þórsnesi sem tekur við þorski en karfinn er fluttur erlendis. Annar afli fer svo á innlendan markað á meðan ástandið í Grindavík er svona.