
Saumastofan Emra gefur gjafir til barna frá Grindavík
Hera Jóhannsdóttir rekur saumastofuna Emra ehf. þar sem hún saumar barnaföt til sölu ásamt því að selja ýmsar barnavörur. Undanfarin þrjú ár hefur Hera aðstoðað jólasveina með því að selja þrettán gjafapakka sem hugsaðir eru til skógjafa. Með fram því hefur hún einnig gefið til góðgerðarmála í desember en í fyrra styrkti hún flóttafólk frá Úkraínu um jólagjafir og árið þar áður gaf hún gjafir til fátækra. Í ár ákvað hún að gefa skógjafir til fjölskyldna frá Grindavík sem flúið hafa heimili sín vegna mikilla jarðhræringa undanfarnar vikur. Viðbrögðin létu ekki á sér standa en þegar búið var að panta gjafir fyrir tæplega 100 börn á örfáum klukkustundum lokaði Hera fyrir frekari pantanir um stund. Þá ákvað hún að bjóða fleiri fyrirtækjum að taka þátt í verkefninu til að geta boðið upp á slíkar gjafir fyrir enn fleiri börn en m.a. hafa Kaupfélag Borgfirðinga, Heildsalan JGR í Borgarnesi og Vífilfell gefið til verkefnisins. Nú geta því fleiri Grindvíkingar pantað pakka hjá Emru. Blaðamaður leit við á saumastofuna í liðinni viku og fékk að vita meira um Emru og góðgerðarverkefni þessa árs.