
Snæfell tapaði fyrir Breiðablik í botnslagnum
Snæfell tók á móti Breiðabliki í Subway deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í íþróttahúsinu við Borgarbraut í Stykkishólmi. Fyrir leik höfðu bæði lið tapað öllum sínum leikjum á tímabilinu og því alveg ljóst að tapliðið myndi sitja eitt á botni deildarinnar að leik loknum. Gestirnir úr Kópavoginum byrjuðu betur í leiknum og voru sex stigum yfir eftir fimm mínútna leik, 6:12. Þegar fyrsta leikhluta lauk voru Breiðablikskonur komnar í enn betri stöðu og leiddu með 14 stigum, 9:23, og heimakonur í ansi vondum málum. En þær bitu aldeilis í skjaldarrendur í seinni hluta annars leikhluta í stöðunni 17:30 og náðu 18-5 áhlaupi sem þýddi að stigamunurinn á milli liðanna var aðeins þrjú stig í hálfleik, staðan 35:38 fyrir Breiðabliki.