
Tveir Borgnesingar luku 100 km fjallahlaupi á Spáni
Borgnesingarnir Jósep Magnússon og Kristinn Óskar Sigmundsson kepptu um helgina í rúmlega 100 km fjallahlaupi á Spáni, nánar tiltekið hlaupi sem nefnist Costa Blanca Trails 103. Hlaupið byrjar og endar í Finestrat skammt norður af Alicante. Hlaupaleiðin er afar stórgrýtt og liggur um stórskorið fjalllendi með giljum og gljúfrum utan í snarbröttum hlíðum. Samanlögð hækkun í hlaupinu var rúmir 5.000 metrar, sem jafngildir u.þ.b. sjö ferðum frá vegi og upp á topp Hafnarfjalls. Reyndar hafði Kristinn það á orði á meðan hann átti enn allmarga kílómetra ófarna, að sér fyndist hann vera búinn að fara tvisvar upp og niður Baulu og einu sinni upp og niður Skessuhornið. Í þokkabót var hlaupið ræst kl. 11 á föstudagskvöldinu, sem þýddi að fyrstu sjö klukkutímana voru hlaupararnir í svarta myrkri. Þrátt fyrir þessar krefjandi aðstæður skiluðu báðir Borgnesingarnir sér í mark. Jósep náði 39. sæti í hlaupinu á 15:29:29 klst, en Kristinn varð nr. 79 á 17:25:48 klst. Samtals hófu um það bil 200 keppendur hlaupið og þar af skiluðu u.þ.b. 170 sér í mark.