
Nýjar 360° myndir á kortavef Já
Í dag eru nýjar götumyndar aðgengilegar á miðlum Já. Sérútbúinn bíll frá Já.is myndaði helstu þéttbýlisstaði á landsbyggðinni í sumar ásamt nýjum hverfum sem hafa verið í mestri uppbyggingu síðastliðin ár. Þetta er sjötta sumarið sem Já.is ræðst í myndatöku af þessu tagi, en fyrsta ferðin var farin sumarið 2013 þegar kortavefurinn var settur á laggirnar. Áherslan í ár var að mynda svæði og þéttbýlisstaði sem ekki hafa verið mynduð lengi og einnig að fara á staði sem hafa ekki verið myndaðir áður þar má nefna Grímsey, Kárahnjúka, Strandir, Vaðlaheiðargöng, Dýrafjarðargöng, Norðfjarðargöng og vegina um Kjálkafjörð og Mjóafjörð. "Megintilgangur verkefnisins er að fanga umhverfið á hverjum tíma fyrir sig, auðvelda notendum Já að komast leiða sinna og glöggva sig á umhverfinu," segir í tilkynningu.
„Myndatakan er auðvitað háð því að veðrið sé gott og þurrt og vorum við sérstaklega heppin með sumarið í ár og gátum myndað þau svæði sem lagt var upp með. Við finnum fyrir stöðugum áhuga á verkefninu og það er greinilegt að notendum Já er annt um þessa þjónustu frá Já.
Við fáum reglulega gagnlegar ábendingar um það sem þarf að breyta og bæta og hvetjum við alla landsmenn að yfirfara sínar skráningar til að tryggja að sjónarhorn séu rétt staðsett.
Gaman er að segja frá því að nú geta einmitt allir skráðir einstaklingar sýslað með sínar skráningar í nýlegu sjálfsafgreiðslukerfi Já, www.mitt.ja.is.
360°myndir eru birtar við skráningar fyrirtækja og einstaklinga sem hafa gefið upplýst samþykki á Já.is og í Já.is appinu. Það eru margar hendur sem koma að verkefninu og því fylgir alltaf mikil tilhlökkun enda verkefni sem okkur þykir vænt um“, segir Dagný Laxdal, Sviðssjóri hjá Já.