Íþróttir
Björgvin Hafþór var með þrefalda tvennu gegn Fjölni. Ljósm. karfan.is

Skallagrímur lagði topplið Fjölnis

Skallagrímur og Fjölnir tókust á í sjöundu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og var leikurinn í Fjósinu í Borgarnesi. Fyrir leik voru gestirnir taplausir á toppi deildarinnar með tólf stig en Skallagrímur um miðja deild með sex stig. Fjölnir byrjaði betur í fyrsta leikhluta og náði 7:12 forskoti og virkuðu hraðir og ákveðnir í sínum aðgerðum. Skallarnir voru þó aldrei langt undan og söxuðu forskotið niður með fallegum og fjölbreyttum þristum. Undir lok leikhlutans komust þeir síðan yfir en Fjölnir jafnaði í 21:21 með flautukörfu. Annar leikhlutinn var algjörlega eign heimamanna og þeir náðu mest átta stiga forystu í stöðunni 35:27 eftir tæpar fjórar mínútur. Þeir voru miklu ákveðnari gegn Fjölnismönnum sem voru engan veginn að finna sig. Skallgrímur var mun sterkari aðilinn og er blásið var til leikhlés leiddu þeir með sjö stigum, 48:41.