Íþróttir
Þórður Freyr Jónsson leiddi lið sitt til sigurs á móti Þór. Ljósm. Jónas H. Ottósson

Skagamenn skelltu Þórsurum í jöfnum leik

Það var mikil spenna í leik ÍA og Þórs Akureyri sem fram fór á föstudagskvöldið í 1. deild karla í körfuknattleik. Spilað var á Jaðarsbökkum. Fyrir leik voru liðin jöfn ásamt Selfossi með fjögur stig í 7.-9. sæti deildarinnar eftir sex umferðir og því mátti búast við jöfnum leik. Þórsarar voru í leit að sínum fyrsta útisigri á tímabilinu á meðan ÍA leitaðist eftir að ná að snúa við hrinu tveggja tapleikja í röð. Liðin skiptust á að ná forystu í fyrsta leikhluta og staðan 8:11 fyrir Þór eftir fimm mínútna leik. Skagamenn voru síðan sterkari seinni hlutann og höfðu sex stiga forskot, þökk sé góðum leik Aamondae Coleman sem setti niður síðustu sex stigin, staðan 20:14 ÍA í vil. Það var áfram hart barist í öðrum leikhluta, heimamenn skoruðu fyrstu fjögur stigin og náðu tíu stiga forskoti áður en gestirnir að norðan komu til baka sem var þó ekki fyrr en rétt undir lok fyrri hálfleiks, staðan 42:37 fyrir ÍA.