Fréttir
Helle Larsen og Júlíus Árni Rafnsson eiga og reka Gluggahöllina í Borgarnesi. Texti og myndir: mm

Gluggahöllin í Borgarnesi sérhæfir sig í gluggum og hurðum

Gluggahöllin er fyrirtæki sem upphaflega var stofnað árið 2012 samkvæmt kennitölu, en stofnárið er í raun 2020 þar sem í upphafi var ákveðið að kaupa eldra félag og nafnabreyta því. Fyrirtækið flutti starfsemi sína í Borgarnes fyrir nokkrum mánuðum. Hjónin Júlíus Árni Rafnsson og Helle Larsen eiga og reka fyrirtækið sem er til húsa í rúmgóðu iðnaðarhúsnæði við Sólbakka 11 í Borgarnesi. Ásamt þeim hjónum starfar Kári Þór bróðir Júlíusar við fyrirtækið og nokkrir verktakar að auki þegar á þarf að halda. Blaðamaður Skessuhorns tók hús hjá þeim hjónum í síðustu viku. Fyrst var reyndar komið við í gamla íbúðarhúsinu í Sólheimatungu í Stafholtstungum þar sem þeir bræður vinna þessa dagana við að endurnýja glugga í þessu 112 ára gamla og reisulega húsi. Pantaðir voru gluggar sem líta út sem næst upprunalegu gluggunum í húsinu. Þeir gömlu voru teknir úr, nýir settir í götin, borað og fest, þétt á milli og gengið frá úti og inni.