
Vatnslitasýningin Blæbrigði opnuð á laugardaginn í Safnahúsi Borgarfjarðar
Fimmta samsýning Vatnslitafélags Íslands verður opnuð í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi næstkomandi laugardag klukkan 14 og verður opin í fjórar vikur á opnunartíma safnist, eða til 21. október. Sýningin hefur hlotið nafnið Blæbrigði en á henni má finna verk eftir 45 vatnslitamálara. „Okkur sem eru í stjórn félagsins fannst kominn tími til að samsýningin yrði haldin utan höfuðborgarsvæðisins þar sem félagið er landsfélag og gripum því fegins hendi boð um að sýna í Hallsteinssal,“ segir Svanheiður Ingimundardóttir í Borgarnesi sem á sæti í stjórn Vatnslitafélags Íslands. Í opnunarhófinu munu þau Gunnar Ringsted og Steinunn Pálsdóttir leika ljúfa tónlist á gítara á meðan sýningargestir skoða verkin á veggjunum. Gunnar og Steinunn eru bæði kennarar við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.