
Blásið verður til nýsköpunar- og frumkvöðlamóts í næstu viku
Nýsköpunar í vestri er yfirheiti frumkvöðla- og fyrirtækjamóts á Vesturlandi sem fram fer föstudaginn 29. september í Hjálmakletti í Borgarnesi. Dagskráin verður frá klukkan 10-18 og eru áhugasamir hvattir til að taka daginn frá. „Markmið mótsins er að efla sköpunarkraft og frumkvöðlastarf á Vesturlandi, tengja fólk saman og stuðla að nýjum verkefnum og verðmætasköpun á svæðinu og er það opið öllum þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfi, umhverfismálum og sjálfbærni,“ segir Bjargey Anna Guðbrandsdóttir framkvæmdastjóri Gleipnis, nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi, í samtali við Skessuhorn.