
Landslið fatlaðra kepptu í keilu á Akranesi
Um helgina fóru fram vináttuleikar fatlaðra í keilu þar sem landslið Svía sótti Ísland heim. Þar leiddu saman hesta sína átta einstaklingar úr landsliðum fatlaðra frá Íslandi og Svíþjóð og fór keppnin fram í Keilusal Akraness við Vesturgötu. Þar átti ÍA tvo fulltrúa og voru það Tómas Freyr Garðarsson og Jóhanna Nína Karlsdóttir sem kepptu fyrir hönd Íslands. Dagarnir voru þétt setnir keppnislega með smá ferð í Akranesvita og í Guðlaugu. Fyrst var keppt á föstudeginum í svokölluðu mixi þar sem einn maður og ein kona kepptu saman. Sigurvegararnir voru Sabina og Robin frá Svíþjóð. Besta íslenska parið voru þau Jóhanna Nína Karlsdóttir og Tómas Freyr Garðarsson en þau lentu í 4. sæti. Þá var komið að einstaklingskeppni karla þar sem sigurvegari var Robin frá Svíþjóð en þeir Hlynur Örn Ómarsson úr ÍR og Tómas Freyr frá ÍA vermdu annað og þriðja sæti. Í einstaklingskeppni kvenna var Sabina frá Svíþjóð sigurvegari en Jóhanna Nína frá ÍA náði bestum árangri íslensku kvennanna.