
Skagakonur komnar í góða stöðu eftir sigur á KH
Það var nokkuð ljóst snemma leiks í leik ÍA og KH í 2. deild kvenna í knattspyrnu, sem fram fór í Akraneshöllinni á laugardaginn, að heimakonur ætluðu sér sigur því þær fengu strax nokkur færi án þess þó að ná að nýta þau. ÍA varð fyrir áfalli á 21. mínútu þegar hin leikreynda Unnur Ýr Haraldsdóttir fékk að líta beint rautt spjald þegar hún togaði niður andstæðing á þeirra vallarhelmingi og boltinn ekki nálægt. En einum færri komust Skagakonur yfir í leiknum fimm mínútum síðar þegar Aníta Sól Ágústsdóttir sendi boltann inn fyrir vörn gestanna á Róbertu Lilju Ísólfsdóttur sem kláraði færið vel. Tíu mínútum síðar bætti Samira Suleman við öðru marki fyrir ÍA þegar hún skoraði sitt tíunda mark í sumar eftir fyrirgjöf með skalla og staðan 2-0 fyrir ÍA í hálfleik.