
Skagakonur töpuðu á móti Haukum í hörkuleik
Það var ansi mikið undir í gærkvöldi þegar lið Hauka og ÍA mættust í 2. deild kvenna í knattspyrnu á Ásvöllum í Hafnarfirði. Fyrir viðureignina var ÍA með 32 stig í öðru sætinu og Haukar í því þriðja með 31 stig en Haukar leikið einum leik meira í deildinni. Með sigri hefðu Skagakonur getað náð góðri stöðu í öðru sætinu en því miður varð það ekki raunin. ÍA byrjaði þó mun betur í leiknum og fengu Skagakonur nokkur ágætis færi sem þær náðu ekki að nýta. Það var því gegn gangi leiksins þegar Ana Catarina Da Costa Bral kom heimakonum yfir á elleftu mínútu eftir góða sókn. Það sem eftir lifði af hálfleiknum reyndu gestirnir að jafna leikinn, fengu nokkur færi en voru ekki á skotskónum að þessu sinni. Staðan 1-0 fyrir Hauka þegar leikmenn liðanna fengu sér hressingu og ráð frá þjálfurum liðanna í hálfleikshléinu.