
Skagamenn með öruggan sigur á Ægi
ÍA vann sinn þriðja sigur í röð í Lengjudeildinni í gærkvöldi þegar liðið tók á móti botnliði Ægis á Norðurálsvelli. Leikurinn fór rólega af stað en fyrsta markið kom á 12. mínútu eftir gott samspil heimamanna. Albert Hafsteinsson setti boltann í gegnum vörn Ægis út til hægri þar sem Breki Þór Hermannsson gaf hann fyrir á Viktor Jónsson sem lagði hann í autt markið. Aðeins fjórum mínútum síðar var Viktor aftur á ferðinni þegar hann skoraði sitt sautjánda mark í jafnmörgum leikjum í sumar. Uppskriftin var keimlík fyrra markinu en nú var það bakvörðurinn Hákon Ingi Einarsson sem sendi fína fyrirgjöf á Viktor sem skallaði boltann auðveldlega í markið, staðan 2-0 og allt útlit fyrir markaregn. Skagamenn hefðu getað bætt við fleiri mörkum í fyrri hálfleik, Arnór Smárason fékk tvö ágætis færi og Breki Þór átti gott skot að marki sem markvörður Ægis, Stefán Þór Hannesson, varði afar vel eins og oft í leiknum. Hinum megin var Árni Marinó markvörður ÍA í smá brasi undir lok fyrri hálfleiks en slapp með skrekkinn og staðan í hálfleik 2-0 fyrir ÍA.