
Skagamenn með mikilvægan sigur á Fjölni
Það var mikið í húfi fyrir leik Fjölnis og ÍA í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar liðin mættust í 16. umferð deildarinnar á föstudagskvöldið. Heimamenn í Fjölni sátu í þriðja sætinu með 29 stig á meðan Skagamenn voru í öðru með 30 stig. Afturelding hafði misstigið sig kvöldið áður og tapað á móti Grindavík en var með 36 stig í efsta sætinu svo það var ljóst að með sigri gætu bæði lið nálgast enn meir þá rauðklæddu úr Mosó. Leikurinn byrjaði fjörlega, bæði lið fengu færi á víxl en fyrsta alvöru færið átti Máni Austmann Hilmarsson fyrir Fjölni eftir tuttugu mínútna leik þegar hann átti skot að marki í fjærhornið en Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA varði vel. Hættulegasta færi Skagamanna kom þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Arnór Smárason tók hornspyrnu og boltinn barst út til Jóns Gísla Eyland sem skaut að marki með viðkomu í Steinari Þorsteinssyni og síðan í þverslána. Staðan markalaus í hálfleik og allt í járnum fyrir seinni hálfleikinn.