Fréttir
Hvalur skorinn í Hvalstöðinni í Hvalfirði sumarið 2018. Ljósm. Úr safni.

Framlengja starfsleyfi Hvals hf. til 12. júlí

Heilbrigðisnefnd Vesturlands hefur fallist á að framlengja gildandi starfsleyfi Hvals hf. til 12. júlí nk. en Hvalur hf. hefur verið án starfsleyfis frá 1. maí 2023 þegar fyrri framlenging leyfisins féll úr gildi. Til að Hvalur hf. haldi áfram starfsemi eftir 12. júlí þarf Heilbrigðiseftirlit Vesturlands að gefa út nýtt starfsleyfi og hefur vinna við það verið í gangi frá 3. júní 2022 en þá lagði Hvalur hf. inn umsókn til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um endurnýjun starfsleyfis fyrir vinnslu hvalaafurða að Litla Sandi í Hvalfjarðarsveit. Samhliða umsókninni sótti félagið um tímabundna framlenginu á gildandi starfsleyfi sem gilti til 12. júlí 2022. Samþykkti Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, á fundi sínum 20. júní 2022, að framlengja gildandi starfsleyfi þar til nýtt starfsleyfi tæki gildi. Taldi nefndin nóg að framlengja leyfið til 1. maí 2023, sem svaraði ríflega 9 mánuðum en lögbundið hámark framlengingar er 12 mánuðir.