
Glæsileg vorsýning Fimleikafélags Akraness
Fimleikafélag ÍA á Akranesi er ört vaxtandi íþróttafélag og skipta iðkendur hundruðum. Félagið býr svo vel að geta æft og sýnt í nýju sérbúnu íþróttahúsi; Fimleikahúsinu við Vesturgötu. Í gær fór fram vorsýning félagsins. Þar sýndu iðkendur frá fimm ára aldri og þjálfarar þeirra afrakstur æfinga í vetur. Að þessu sinni var þema sýningarinnar Umhverfis jörðina á 80 dögum. Sögumennirnir Katla og Snorri kynntu atriðin og flakk þeirra umhverfis jörðina. Dansar, æfingar og atriði voru í þema þess lands sem sögumenn leiddu gesti til hverju sinni. Þannig sáu gestir írska þjóðdansa, blómum prýdd atriði frá Haway, lopapeysuklædda Íslendinga og fleiri skemmtileg atriði. Fyrsta sýningin var klukkan 11 að morgni og voru yngstu iðkendur FIMA með í henni. Þeir voru hins vegar ekki á síðari tveimur sýningunum sem voru klukkan 12:45 og 14:30, enda væri þátttaka þeirra í öllum sýningum full krefjandi fyrir ekki eldri börn.