
Skagakonur með sterkan sigur á ÍR
ÍA og ÍR áttust við í 2. deild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi og var leikurinn í Akraneshöllinni. Fyrir leik voru bæði lið með tíu stig eftir fjóra leiki og taplaus og því um alvöru toppslag að ræða. Leikurinn fór fjörlega af stað, bæði lið voru að reyna að finna taktinn og skapa sér færi. Helsta ógn ÍA kom hægra megin þar sem Unnur Ýr Haraldsdóttir var ógnandi með sínum hraða og átti hún nokkra góða spretti og fyrirgjafir sem ekki tókst að nýta. Hún tók síðan málin í sínar hendur á 26. mínútu þegar hún vann boltann vel fyrir utan teig og lét vaða á markið af 25 metrunum yfir markmann ÍR, glæsilega gert og staðan 1-0 fyrir ÍA. Eftir markið þyngdist sókn gestanna, vörn ÍA var þó föst fyrir og ÍR náði ekki að skapa sér nein hættuleg færi fyrr en á 37. mínútu þegar Þórkatla María Halldórsdóttir slapp inn fyrir vörn ÍA. Hún átti skot að marki sem Salka Hrafns Elvarsdóttir markvörður ÍA varði vel, boltinn barst aftur út og endaði að lokum í fangi Sölku. Skömmu síðar fékk Erla Karitas Jóhannesdóttir gott færi eftir góða fyrirgjöf Unnar Ýrar en kom boltanum ekki á markið. Skagakonur einu marki yfir í hálfleik og ljóst að áhorfendur áttu von á spennandi seinni hálfleik.