Fréttir
Svipmynd af fundinum.

Þungt hljóð í félagsmönnum Fornbílafjelags

Aðalfundur Fornbílafjelags Borgarfjarðar var haldinn í gærkvöldi í húsi Gamla mjólkursamlagsins við Skúlagötu í Borgarnesi. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var einkum rætt um slæma stöðu félagsins í húsnæðismálum. Eins og kunnugt er lét Borgarbyggð loka húsnæði félagsins í Brákarey í byrjun árs 2021 vegna athugasemda sem gerðar höfðu verið um ófullnægjandi eldvarnir. Síðan hefur Borgarbyggð, sem jafnframt er eigandi húsanna, einhliða rift leigusamningi við félagið og mögulega skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart því. Fram kom á fundinum að nú væru sterkar vísbendingar um að félagið fái ekki aftur inni með starfsemi sína í Brákarey og þurfi því að leita annarra leiða í húsnæðismálum sínum, ella að leggja félagið niður. Fram kom á fundinum að sveitarstjóri hafi upplýst stjórn um að unnið væri að tillögum um nýtt skipulag Brákareyjar og gerðu þær ráð fyrir því að fyrrum hús sláturhússins og fjárréttar muni á komandi árum verða rifin.

Þungt hljóð í félagsmönnum Fornbílafjelags - Skessuhorn