
Nýr bíll til björgunarsveitarinnar Ósk í Dalabyggð
Í liðinni viku fékk Björgunarsveitin Ósk í Dalabyggð afhentan 40″ breyttan RAM 3500 Laramie Mega Cab bíl frá Ísband ehf. sem flytur inn ýmsar gerðir bandarískra bíla. Bíllinn kemur í stað eldri bíls sem björgunarsveitin Ósk hefur átt og rekið í rúm 35 ár og er af gerðinni Ford Econoline. Þann bíl flutti björgunarsveitin inn frá Ameríku og breytti honum svo hann hentaði til björgunarstarfa.
Nýi bíllinn var ekki verkefnalaus lengi, en um helgina fór hann í sitt fyrsta verkefni með Slökkviliði Dalasýslu.
Bíllinn er hlaðinn allskonar búnaði og má þar t.d. nefna hljóðgjafa, dráttarspil og loftdælu. Í honum er einnig 360° myndavélakerfi svo hægt er að sjá allan hringinn í kring um bílinn og þá er bíllinn búinn öflugum ljósabúnaði. WiFi nettenging er einnig í bílnum og nær hún í 40 – 50 metra radíus frá bílnum. Bíllinn er með leiðsögutæki frá Garmin og fjarskiptabúnaður er Tetra, VHF og GSM. Þá getur bíllinn getur tekið einar sjúkrabörur í pallhúsið.