
Snæfell úr leik eftir tap gegn Þór Akureyri í mögnuðum leik
Það var ljóst eftir tap Snæfells á móti Þór Akureyri á föstudagskvöldið að Snæfellskonur máttu ekki misstíga sig í leik Snæfells og Þórs sem fram fór í Stykkishólmi í gærkvöldi. Með sigri hefði Snæfell jafnað metin í 2-2 í einvíginu um sæti í Subway deild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili og úrslitaleikur því í kortunum næsta miðvikudag. Það var troðfull stúkan í Hólminum og stemningin á suðupunkti fyrir leik. Leikurinn hófst með látum og þristunum rigndi niður hjá liðunum í fyrsta leikhluta. Þegar klukkan sýndi tæpar fimm mínútur var hnífjafnt, 12:12, og í stíl við fyrsta leikhlutann þá átti Minea Takala síðasta orðið fyrir Snæfell þegar hún hitti úr þriggja stiga skoti á síðustu mínútunni, staðan 24:21 fyrir Snæfelli. Heimakonur voru sterkari fyrri hluta annars leikhluta og voru mest með átta stiga forskot áður en Þórskonur náðu frábærum kafla og skoruðu tólf stig í röð, staðan 34:38 fyrir Þór eftir rúman sjö mínútna leik. Madison Anne Sutton hjá Þór setti svo niður þrist rétt fyrir hálfleik og kom gestunum í fína forystu, hálfleikstölur 36:44 Þór í vil.