
Snæfell jafnaði metin á móti Þór Akureyri
Snæfell og Þór Akureyri mættust í öðrum leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í Stykkishólmi. Mikil stemning var í húsinu, umgjörðin til fyrirmyndar og ljóst að Snæfell þyrfti að ná sigri til að lenda ekki upp við vegg fyrir næsta leik í einvíginu. Fyrsti leikhlutinn einkenndist af miklu stressi enda skoruðu liðin ekki mikið en voru afar sterk varnarlega. Eftir um fimm mínútna leik var staðan 10:8 fyrir Snæfelli og þegar leikhlutanum lauk var Snæfell með fjögurra stiga forystu, 15:11. Gestirnir byrjuðu betur í öðrum leikhluta og náðu að jafna metin í 15:15 en næstu mínútur skiptust liðin á körfum og staðan 22:19 fyrir Snæfelli eftir tæpan fimm mínútna leik. Þá settu Snæfellskonur kraft í vörnina um leið og þær fóru að hitta betur og Rebekka Rán Karlsdóttir átti síðasta orðið fyrir hálfleik þegar hún setti niður flautuþrist, staðan 34:23 Snæfelli í vil.