
Snæfell tapaði naumlega fyrir Þór Akureyri í fyrsta leik
Þór Akureyri og Snæfell mættust í úrslitakeppni 1. deildar í körfuknattleik kvenna á laugardaginn og fór leikurinn fram í höllinni á Akureyri. Var um að ræða fyrsta leik í einvíginu og þarf að ná þremur sigrum til að komast í úrslitaviðureign á móti Stjörnunni eða KR um eitt sæti í Subway deildinni á næstu leiktíð. Það var vel mætt og mikil stemning í húsinu enda alltaf mikil spenna sem fylgir úrslitakeppni og mikið undir. Snæfell byrjaði betur og komst í 0:5 en heimakonur vöknuðu fljótlega og staðan 7:7 þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Einhver taugaspenna var í leikmönnum beggja liða því þær hittu illa og stigaskorið eftir því. Snæfell setti niður síðustu sex stigin í fyrsta leikhluta og leiddi með þremur stigum, 13:16. Þær áttu svo einnig fyrstu sex stigin í öðrum leikhluta og voru komnar með níu stiga forystu, 13:22. Um rúman miðjan leikhlutann var forskot Snæfells 13 stig, 19:32, en þá tóku Þórskonur loksins við sér og náðu að minnka muninn í þrjú stig fyrir hálfleik, staðan 31:34 og allt í járnum.