Fréttir
Hér má sjá inn í setustofuna á Jaðri sem verður með frábæru útsýni.

Framkvæmdir ganga vel á Höfða

Blaðamaður Skessuhorns leit á dögunum við á Höfða hjúkrunar- og dvalarheimili við Sólmundarhöfða á Akranesi. Í mars á síðasta ári hófst þar fyrsti áfangi við endurbætur og framkvæmdir á heimilinu og er endurbótunum skipt upp í fjóra áfanga á framkvæmdatímanum. Lokið er við endurbætur á tveimur áföngum. Nú eru í gangi framkvæmdir á heimilinu Jaðri, er áætlað að þeim ljúki seinni hluta aprílmánaðar og fjórða áfanga ljúki í júlí í sumar. Jaðar er á annarri hæð og þar er verið að taka í gegn tíu íbúðir, endurnýja allt gler, stækka allar hurðir og setja upp mjög fullkomna loftræstingu. Liturinn í þessu rými verður fjólublár en hann er sérstaklega valinn fyrir heilabilað fólk sem á að henta vel fyrir það. Að sögn Kjartans Kjartanssonar framkvæmdastjóra á Höfða og Ólínu Ingibjargar Gunnarsdóttur hjúkrunarforstjóra segja þau varðandi litaval á göngum Höfða að starfsfólkið hefði viljað aðeins poppa þetta upp og setja jarðliti en ekki ljósan stofnanalit. Meiningin með því var að þetta líktist meira heimili og eru Kjartan og Ólína sammála um að það hafi tekist vel.

Framkvæmdir ganga vel á Höfða - Skessuhorn