
Við Brynjudalsá í Hvalfirði. Ljósm. mm
Alþjóðadagur vatnsins er í dag
Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatnsins sem ætlaður er til að minna okkur á mikilvægi vatns fyrir okkur og allt líf á jörðinni. Vatn er lífsnauðsynlegt öllum og flestir kannast einnig við róandi og heilandi áhrif þess að sitja á lækjarbakka eða við strönd og fylgjast með hreyfingum vatnsins og hlusta á árniðinn, öldugjálfur eða brimhljóð. Á degi vatnsins er vel við hæfi að fá sér göngutúr meðfram á, vatni eða ströndinni sem er í mestu uppáhaldi hjá hverjum og einum. Setjast niður í rólegheitunum og velta fyrir sér þeim undrum sem búa undir yfirborðinu, og lífverunum sem þar hafa aðlagast aðstæðum, jafnvel í þúsundir ára.