
Snæfell tapaði með minnsta mun fyrir deildarmeisturunum
Stjarnan og Snæfell mættust í síðustu umferð 1. deildar kvenna í körfuknattleik á þessu tímabili á laugardaginn og fór leikurinn fram í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ. Fyrir leik var ljóst að Stjarnan var deildarmeistari og að Snæfell myndi enda í þriðja sæti þannig að það var lítið undir í leiknum, nema stoltið. Leikurinn fór rólega af stað, Stjarnan skoraði sín fyrstu stig eftir tæpar þrjár mínútur en á sama tíma voru gestirnir að tapa boltanum mikið og því frekar jafnt með liðunum. Stjarnan komst í 16:11 eftir rúmar sex mínútur en Snæfell kom síðan til baka og hafði eins stigs forystu eftir fyrsta leikhluta, 16:17. Snæfell hafði yfirhöndina nánast allan tímann í öðrum leikhluta þó ekki væri mikill stigamunur á liðunum. Um rúman miðjan leikhlutann var staðan 27:32 Snæfelli í vil og þegar flautað var til hálfleiks var þetta á svipuðum nótum, 36:40 fyrir Snæfelli.