
Skagamenn skelltu nýkrýndum deildarmeisturum
Álftanes og ÍA áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var viðureignin á Álftanesi. Eftir leik fengu heimamenn deildarmeistarabikarinn afhentan en á mánudaginn tryggðu þeir sér sæti í Subway deildinni með sigri á Skallagrími. Svo virtist sem Álftnesingar væru ekki alveg búnir að jafna sig eftir fagnaðarlætin í byrjun vikunnar því eftir rúman sex mínútna leik var helmingsmunur á liðunum, 11:22 ÍA í vil. Þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn á milli liðanna ellefu stig, 16:27, og gestirnir í ansi góðum málum. Um rúman miðjan annan leikhluta var munurinn orðinn 14 stig, 30:40, en þá náði Álftanes ansi góðum kafla þegar skoruðu ellefu stig í röð án nokkurs svars frá ÍA. Staðan í hálfleik 45:48 fyrir ÍA og spenna komin í leikinn.