
Keith Jordan Jr. á flugi á móti Álftanesi. Ljósm. karfan.is
Álftanes komið í Subway deildina eftir sigur á Skallagrími
Álftanes og Skallagrímur áttust við á Álftanesi í gærkvöldi og með sigri gátu heimamenn tryggt sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Heimamenn virtust yfirspenntir og smá taugaveiklaðir í byrjun leiks því Skallagrímur komst í 4:9 eftir tæpan tveggja mínútna leik. Álftanes náði þó fljótlega áttum og staðan 15:15 um miðbik fyrsta leikhluta. Heimamenn settu svo niður síðustu sjö stigin í leikhlutanum og komu sér í fína stöðu, staðan 25:17 fyrir Álftanesi. Heimamenn héldu áfram að herja á Skallana og voru komnir með 15 stiga forskot eftir rúmar fimm mínútur í öðrum leikhluta. Þeir voru alls ekki hættir og þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin ansi erfið fyrir gestina, hálfleikstölur 57:35 fyrir Álftnesingum.