
Júlli Jóns og Inga Kolfinna Ingólfsdóttir eiginkona hans við einn flutningabílinn í flotanum. Ljósm. úr safni Skessuhorns.
Vörumiðlun kaupir flutningafyrirtæki Júlla Jóns
Gengið hefur verið frá kaupum á flutningafyrirtæki Júlíusar Jónssonar í Borgarnesi. Kaupandinn er Vörumiðlun, dótturfyrirtæki KS. Júlíus staðfestir þetta í samtali við Skessuhorn. Hann segir að búið sé að handsala kaupin en formlega gangi salan í gegn um næstu mánaðamót. Vörumiðlun mun áfram reka starfsstöð í Borgarnesi en hún er til húsa í Engjaási, og engar breytingar eru fyrirhugaðar hvað starfsmenn snertir, þeim bjóðist vinna áfram. Aðspurður segist Júlli hafa vonast eftir að heimamenn keyptu af sér reksturinn en af því hafi ekki orðið. Því fagnar hann þessum málalokum.