
Úrslit eftir annað kvöldið í Vesturlandsdeildinni
Það reyndist villikötturinn sem bar sigur úr býtum á öðru móti Vesturlandsdeildarinnar í hestaíþróttum sem haldið var síðastliðið fimmtudagskvöld í Faxaborg í Borgarnesi. Keppt var í slaktaumatölti. Til að útskýra villiköttinn er það svo að öll lið máttu nota einu sinni svokallaðan villikött sem telur þá til stiga í liðakeppninni. Var það lið Uppsteypu sem fékk Guðmar Hólm Líndal á hryssunni Vildísi frá Múla með sér í lið í slaktaumatöltinu. Óhætt er að segja að það hafi verið góð hugmynd, því Guðmar gerði sér lítið fyrir og sigraði og lið Uppsteypu sigraði jafnframt liðakeppni kvöldsins. Staðan á toppi deildarinnar er því býsna jöfn; Söðulsholt með 79 stig og Uppsteypa með 76. Í einstaklingskeppninni er Friðdóra Friðriksdóttir efst. Næst verður keppt í Gæðingalist miðvikudaginn 22. mars.