FréttirMannlíf
Anna Sólrún í eldhúsinu sínu á Kjartansgötunni. Ljósm. glh

Hefur alltaf haft mikinn áhuga á innanhússhönnun – MYNDIR

Kíkt í heimsókn til Önnu Sólrúnar Kolbeinsdóttur í Borgarnesi

Þegar komið er inn á heimili þeirra Önnu Sólrúnar Kolbeinsdóttur og Friðriks Pálma Pálmasonar að Kjartansgötu 18 í Borgarnesi má strax og komið er inn um gættina sjá að þar býr fólk sem þykir vænt um heimilið sitt og þykir gaman að nostra við það. Inni er hlýlegt og smekklega innréttað.

Þetta viðtal birtist fyrst í 45. tölublaði Skessuhorns, árið 2019. Nú birtist það hér á vef í heild sinni

Elskar gamalt og nýtt
Anna Sólrún tók vel á móti blaðamanni og aðspurð segist hún alltaf hafa haft mikinn áhuga á innanhússhönnun. „Ég veit svo sem ekki hvaðan þessi áhugi kemur. Það eru ekki margir í kringum mig sem deila þessu áhugamáli fyrir innanhússhönnun. Þetta hefur einhvern veginn alltaf blundað í mér. Allavega, frá því ég man eftir mér,“ segir Anna Sólrún hugsi. „Það er sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla sem það aldrei hefur verið jafn auðvelt fyrir mig að sækja innblástur. Til dæmis, þá eru sænskar píur alveg svakalega duglegar við að gera upp gamlar mublur, mála þær og gera þær geðveikt flottar á ný. Ég elska þessa hugmynd, að nýta gamla hluti á heimilinu í samblandi við nýtt,“ bætir hún við.

Sjónvapsveggurinn sem Anna Sólrún ásamt Friðriki kærasta sínum byggðu eina helgina. Ljósm. glh

Tilraunastarfsemi í æskuherberginu
Anna Sólrún rifjar upp við blaðamann innanhússhönnunar tilraunir sínar í barnæsku og getur ekki annað en hlegið að því sem foreldrar hennar gáfu grænt ljós á. „Ég var stöðugt að raða upp á nýtt inni í herberginu mínu og endalaust að færa húsgögnin eitthvað til. Svo var ég alltaf að spyrja mömmu hvort ég mætti mála herbergið mitt. Ég fékk það nú yfirleitt ekki í gegn, mömmu fannst þá svolítið vesen á mér. Ég man hins vegar eftir einu tilfelli þegar ég fékk leyfi til að mála herbergið mitt rautt. Þá var ég fimmtán ára gömul og við erum að tala um að ég málaði herbergið mitt eldrautt. Ég fór eina umferð með rauðu málninguna og ætlaði heldur betur að láta það duga, nennti náttúrlega ekki meiru,“ segir Anna Sólrún og skellihlær. „Það voru auðvitað línur út um alla veggi. Mamma tók þetta ekki í mál og lét mig klára verkið, sem ég gerði svo fyrir rest,“ bætir hún kímin við. „Þau fengu svo töluverðan frið þegar ég flutti að heiman.“

Á hugmyndaskónum
Anna Sólrún segist stöðugt vera að fá nýjar hugmyndir og að hver geggjaða hugmyndin á eftir annarri komi upp í kollinn reglulega en segir það á sama tíma ekki endilega alltaf gott. „Ég á það til að fá geggjaða hugmynd og vaða beint í að koma henni í framkvæmd. Svo fer hugurinn á kreik á ný, ég fæ nýja hugmynd og vil byrja strax að koma henni í verk. Fljótlega, áður en ég veit af, þá er ég með nokkur ókláruð verkefni. Þetta er agalegt, auðvitað á maður að klára eitt áður en maður veður í annað. Ég verð bara svo rosalega spennt þegar ég fæ góða hugmynd og þá er erfitt að stoppa sig af.“

Markmiðið með sérsmíðuðum sjónvarpsvegg var að hafa engar snúrur sjáanlegar. Markmiðinu var svo sannarlega mætt eins og sést hér. Ljósm. glh

Margt búið, en langur er listinn
Húsið á Kjartansgötunni sem þau Anna og Friðrik búa í ásamt börnunum sínum tveimur, Ástdísi og Emil, hefur tekið töluverðum breytingum síðan fjölskyldan flutti inn, rétt fyrir jólin 2015. Húsið er 115 fermetrar að stærð, plús bílskúr. „Við erum búin að opna rýmið svo að eldhúsið og stofan fái að njóta sín betur. Nú fáum við alla þessa birtu frá stofuglugganum inn í eldhúsið okkar. Við erum einnig búin að taka baðherbergið alveg í gegn ásamt því að umturna garðinum úti og setja til dæmis grasblett fyrir framan húsið og heljarinnar pall sem er algjör draumur, sérstaklega á sumrin,“ útskýrir Anna Sólrún. Þrátt fyrir mörg kláruð verkefni þá er listinn langur hjá Önnu Sólrúnu og Friðriki. „Þvottahúsið er alveg eftir, það er bara fokhelt eins og er. Við eigum líka eftir að skipta um glugga og klára að klæða húsið að utan,“ bætir hún við.

Snúrulaus sjónvarpsveggur
Anna Sólrún hefur virkilega gaman af því að spreyta sig sjálf þegar kemur að hönnun og sótti hún sér innblástur frá Söru Dögg Guðjónsdóttur, innanhússhönnuði, sem hafði gert nokkrar útfærslur tengt sjónvarpi, til dæmis hvernig eigi að fela snúruflóðið sem fylgir flatskjáum í dag. Oftar en ekki reynast allar þessar snúrur afskaplega hvimleiðar ásjónar og því eru góð ráð dýr. „Ég var staðráðin í að gera eitthvað sniðugt við sjónvarpsvegginn. Mér finnst nefnilega svo leiðinlegt þegar sjónvarpið er orðin einhver mubla inni í herberginu af því sjónvörp yfir höfuð eru mjög ljót. Með þessari lausn verður þetta allt aðeins fallegra,“ útskýrir Anna Sólrún og blaðamaður getur ekki annað en tekið undir það, enda engar snúrur sjáanlegar í stofunni hjá þeim. En hvernig gekk að gera þetta alveg sjálf? „Hann Friðrik hjálpaði mér, þetta var alveg 50/50 vinna frá okkur báðum. Ég var búin að breyta um skoðun ansi oft áður en við réðumst loks í framkvæmdir. Einn daginn, þá teiknaði ég þetta upp, tilkynnti Friðriki að ég væri búin að redda pössun fyrir krakkana eina helgina og að við værum að fara í þetta verkefni, að byggja sjónvarpsvegginn. Við kláruðum vegginn að mestu þessa tilteknu helgi, það er einungis smá frágangur eftir,“ segir Anna Sólrún ánægð að lokum en hún stefnir jafnframt á að læra húsgagnasmíði og á sér það markmið að smíða nýtt eldhússborð fyrir fjölskylduna.

Píanóið í stofunni er í sérstöku uppáhaldi hjá Önnu Sólrúnu. Ljósm. glh

Eins og sést hér er afar hlýleg og noteleg stemning í stofunni hjá Önnu Sólrúnu og Friðrik. Ljósm. glh

Anna Sólrún er afar lunkin og smíðaði þennan rúmgafl sjálf ásamt því að handsauma áklæðið sem gefur svefnherberginu ákveðinn stíl. Ljósm. glh
Hefur alltaf haft mikinn áhuga á innanhússhönnun - MYNDIR - Skessuhorn