
Erfið en ígrunduð ákvörðun að loka Laugargerðisskóla
Á fundi sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps síðastliðinn mánudag var á grundvelli rekstrartalna, samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, að óska eftir formlegum viðræðum við Sveitarfélagið Stykkishólm um að veita grunn- og leikskólaþjónustu fyrir hreppinn á næsta skólaári. Skólastarfi í Laugargerðisskóla verði þá endanlega slitið í lok yfirstandandi skólaárs 2022-2023 náist samkomulag þar um. „Þessi ákvörðun er vissulega erfið en mjög ígrunduð. Rekstur skólans hefur verið þungur síðustu ár og sér sveitarstjórn enga leið til að skera meira niður í skólastarfinu án þess að það komi verulega niður á þjónustu við nemendur,“ segir Sigurbjörg Ottesen, oddviti í samtali við Skessuhorn.