
Þórður Freyr var ansi öflugur á móti liði Hamars. Ljósm. Jónas H. Ottósson
Skagamenn skelltu toppliðinu óvænt
ÍA og Hamar áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og fór leikurinn fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Fyrir leik sátu Skagamenn í níunda sæti deildarinnar með 12 stig en lið Hamars í toppsætinu ásamt Álftanesi með 34 stig og ljóst að við ramman reip yrði að draga hjá heimamönnum miðað við stöðuna í deildinni. Liðin skiptust á að ná forystu nánast í öllum fyrsta leikhluta en undir lok hans náði ÍA góðum kafla og hafði fimm stiga forskot, 25:20. Þegar annar leikhluti var sirka hálfnaður var staðan 36:36 og allt í járnum. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan enn jöfn, 45:45, en gestirnir úr Hveragerði settu þá niður sex stig í röð og staðan 45:51 í hálfleik.