Íþróttir
Snæfellskonur geta brosað breitt þessa dagana. Ljósm. sá

Snæfell með stórsigur á b liði Breiðabliks

Breiðablik b og Snæfell mættust í Smáranum í Kópavogi í 1. deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Breiðablik b var án stiga og hafði tapað öllum 15 leikjum sínum í deildinni á meðan Snæfell var í öðru til þriðja sæti ásamt Þór Akureyri með 24 stig. Það er skemmst frá því að segja að leikmenn Snæfells gerðu út um leikinn strax í fyrsta leikhluta. Eftir rúmar fimm mínútur var staðan 7:19 fyrir Snæfelli en þá settu þær í handlás og skoruðu 17 stig í röð án nokkurs svars frá heimakonum, staðan 7:36 fyrir Snæfelli. Gestirnir áttu fimm fyrstu stigin í öðrum leikhluta og þar með 22 stig í röð í leiknum áður en Breiðablik b skoraði sín fyrstu stig í meira en sex mínútur. Stigamunurinn á liðunum breyttist lítið fram að hálfleik og staðan 26:53 fyrir gestunum þegar liðin gengu til búningsklefa.

Snæfell með stórsigur á b liði Breiðabliks - Skessuhorn