
Útlitsteikning af væntanlegri C álmu Grundaskóla.
Sjammi átti lægsta boð í C álmu Grundaskóla
Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar síðastliðinn mánudag voru opnuð tilboð í framkvæmdir við C álmu, stækkun og endurbætur á Grundaskóla. Um mjög stórt verkefni er að ræða og því þurfti að bjóða það út á evrópska efnahagssvæðinu. Kostnaðaráætlun bæjaryfirvalda hljóðaði upp á rúmar 1.200 milljónir króna. Sjammi ehf. átti lægra tilboðið af tveimur og var það upp á 1.387 milljónir, eða 14% yfir kostnaðaráætlun. Hitt tilboðið var frá E. Sigurðssyni ehf. og var 1.591,5 milljón króna. Samþykkti skipulags- og umhverfisráð að taka tilboði Sjamma. Samkvæmt útboðsgögnum á verkið að hefjast sem fyrst, eða á næstu vikum. Verkinu á svo að verð að fullu lokið fyrir árslok 2024.