Íþróttir
Frá RIG mótinu: Jóhann Ársæll Atlason, Ísak Birkir Sævarsson, Magnús Sigurjón Guðmundsson og Matthías Leó Sigurðsson. Ljósm. aðsend.

Keilufólk á RIG og öldungamóti

Reykjavíkurleikarnir, RIG, kláruðust 2. febrúar síðastliðinn og átti ÍA nokkra keppendur þar í keilu. Helgina 21. og 22. janúar var spilað Early Bird sem er einskonar forkeppni á RIG og þar gerði Matthías Leó Sigurðsson sér lítið fyrir og setti fimm Íslandsmet í flokki U16. Hann setti met í 2, 3, 4, 5 og 6 leikjum. Matthías náði 1.387 í sex leikjum sem gerir 231 að meðaltali. Fjórir einstaklingar frá ÍA komust áfram í Final Step 1 en þar þarf að vinna tvo leiki af þremur til að komast í Final Step2. Frændurnir Magnús Sigurjón Guðmundsson og Matthías Leó Sigurðsson háðu viðureign þar sem Matthías varð að láta í minni pokann. Í Final Step 1 kepptu einnig Jóhann Ársæll Atlason sem átti leik við Svíann Matthias Möller og Ísak Birkir Sævarsson sem keppti við Nönnu Hólm úr ÍR og þurftu þeir að lúta í lægra haldi þar. Magnús keppti svo í Final Step 2 og tapaði þar fyrir fyrrum liðsfélaga sínum úr Team Clan frá Nässjö í Svíþjóð. Magnús vann fyrsta leikinn með 202 á móti 197 pinnum. William vann leik tvö með 252 pinnum á móti 177 og einnig þann þriðja með 215 á móti 166 hjá Magnúsi. William Bergren gerði sér svo lítið fyrir og varð í 1. sæti á RIG svo það var ekki fyrir leiðum að tapa.

Keilufólk á RIG og öldungamóti - Skessuhorn