
Kristján Þórður Snæbjarnarson er starfandi forseti ASÍ. Ljósm. úr safni.
ASÍ telur stjórnvöld hafa misst sambandið við líf almennings
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun verðbólgunnar. Miðstjórn telur gagnrýnivert að stjórnvöld hafi kosið að leiða hjá sér ábendingar og varnaðarorð um að hækkun ýmissa skatta og gjalda um áramót myndu koma af fullum þunga niður á almenningi í formi minni kaupmáttar, verðbólgu og vaxtahækkana. Sú spurning gerist sífellt áleitnari hvort íslenskir ráðamenn hafi með öllu glatað sambandi við líf almennings í landinu,“ segir í tilkynningu sem miðstjórn var að senda frá sér.