Íþróttir
Skagamenn eru í smá brekku þessa dagana. Ljósm. vaks

Skagamenn áttu enga möguleika á móti Álftanesi

ÍA og Álftanes áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og var viðureignin í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Skagamenn höfðu tapað síðustu fimm leikjum sínum í deildinni á meðan Álftanes hafði unnið síðustu þrjá og sat á toppi deildarinnar. ÍA byrjaði ágætlega í leiknum, komst í 8:2 en um miðjan fyrsta leikhluta í stöðunni 12:8 fyrir ÍA skoruðu gestirnir 15 stig í röð og breyttu stöðunni í 12:23 áður en ÍA skoraði loks stig á lokamínútunni, staðan 14:23. Álftanes gekk á lagið í öðrum leikhluta og var komið með 20 stiga forystu eftir sex mínútna leik. Á þessum tíma hittu Skagamenn ekki neitt, misstu boltann frá sér og voru ekki alveg með sjálfstraustið í lagi. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 29:50 fyrir gestunum og ljóst að heimamenn þurftu að taka á honum stóra sínum ef þeir ætluðu að fá eitthvað út úr leiknum.