Fréttir
Byggðareitir og gatnakerfi á skipulagssvæðinu sem í hlut á við Smiðjuvelli.

Samþykktu nýjan deiliskipulagsramma fyrir Smiðjuvelli

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar sl. þriðjudag var tekinn til afgreiðslu og samþykktur með átta atkvæðum skipulagsrammi sem felur í sér breytingu á aðal- og deiliskipulagi á Smiðjuvöllum. Sú breyting er lögð til að lóðin Smiðjuvellir 32, verslunarmiðstöðin með Bónus og fleiri fyrirtækjum, verður hluti skipulagslýsingarinnar. Einkum snúa þó áætlaðar breytingar að áformum um breytingu á deiliskipulagi Smiðjuvalla 12-22. Þar eru uppi hugmyndir um að reisa blandaða þétta byggð með íbúðum og atvinnustarfsemi á jarðhæð, sbr. meðfylgjandi skýringarmynd. Eigandi Smiðjuvalla 12-22 er félagið Smiðjuvellir ehf. sem er í eigu Sigurðar Sigurgeirssonar. Verði framlagðar breytingar á skipulagi samþykktar er gert ráð fyrir að framkvæmdir gætu hafist þegar á þessu ári. Einnig liggur fyrir að skemman sem nú stendur á Smiðjuvöllum 22 verði rifin til að lóðin rúmi væntanlegt byggingarmagn. Í frumdrögum hönnunar er á byggingarreitnum gert ráð fyrir um 200 íbúðum og að atvinnuhúsnæði á jarðhæð verði um 3.500 fermetrar. Bílastæði eru áætluð um 300.

Samþykktu nýjan deiliskipulagsramma fyrir Smiðjuvelli - Skessuhorn