Körfuboltakonan Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur ákveðið að hætta að spila með liði Fjölnis sem leikur í Subway deildinni í körfuknattleik. Sigrún Sjöfn var spilandi aðstoðarþjálfari hjá Fjölni í vetur og lék einnig með liðinu á síðasta keppnistímabili. Ástæðuna segir hún vera ólíka sýn hennar og aðalþjálfarans Kristjönu Eirar Jónsdóttur. „Þetta átti svo sem ekki að enda svona og ég er ekki hætt í körfu, en ég hef ákveðið að draga mig í hlé frá meistaraflokki Fjölnis,“ segir hún í viðtali við visir.is.
Sigrún Sjöfn, sem er 34 ára Borgnesingur, segir að hún hafi tilkynnt um ákvörðun sína eftir tap gegn botnliði ÍR um miðja síðustu viku. Hún segir að hún hafi verið titluð sem aðstoðarþjálfari og þær Kristjana voru einhvern veginn ekki að ná takti saman. „En meginástæðan fyrir ákvörðun minni eru ekki stelpurnar í liðinu eða neitt slíkt. Þetta eru flottar stelpur og þarna eru frábærir einstaklingar. Við Kristjana náðum ekki takti saman. Það er helsta ástæðan. Þetta er búið að vera erfitt hjá okkur og ég ákvað að stíga núna frá borði,“ segir Sigrún Sjöfn sem útilokar ekki að semja við nýtt félag áður en félagaskiptaglugginn lokast um mánaðamótin.
Sigrún Sjöfn lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki með KR árið 2008 og hefur síðan þá leikið einnig með Hamar, Grindavík, uppeldisfélagi sínu Skallagrími og Fjölni. Hún hefur leikið yfir 300 leiki á sínum ferli í meistaraflokki og 57 A landsleiki.