Á morgun, fimmtudaginn 26. janúar klukkan 20, verður Listfélag Akraness formlega stofnað í sal Brekkubæjarskóla á Akranesi. Þá verður haldinn kynningarfundur um félagið og nýir félagar boðnir velkomnir. Unnið hefur verið að stofnun félagsins frá því í haust. Skipuð var stjórn til að annast undirbúning að stofnun félagsins og hefur það nú verið gert og fer félagið inn í formlega stofnun eftir að hafa verið skráð og því fengin kennitala. Smári Hrafn Jónsson er formaður undirbúningsstjórnar en með honum í stjórn eru Lára Magnúsdóttir, Erna Hafnes, Catherine Soffía Guðnadóttir og G. Ása Degen Guðmundsdóttir gjaldkeri.
Smári Hrafn segir í samtali við Skessuhorn að stofnun Listfélags Akraness sé afrakstur framtaks Eddu Agnarsdóttur á Vökudögum haustið 2022, þar sem hún setti í gang samsýningu listamanna á Akranesi undir nafninu Falið afl. Á þeirri sýningu tóku þátt 32 listamenn, margir hverjir að sýna sín verk í fyrsta sinn. „Á uppgjörsfundi Falins afls í nóvember síðastliðnum var ákveðið að stofna félag listamanna á Akranesi með það að markmiði að sameina undir einn hatt þá fjölmörgu listamenn sem vinna að list sinni hér á svæðinu. Á fundinum var skipuð fimm manna stjórn sem vinna skyldi að stofnun félagsins,“ segir Smári.
„Við erum bjartsýn á að úr þessu verði öflugt félag sameinaðra listamanna með víðtækt samstarf og kynningu á því öfluga og fjölbreytta grasrótarstarfi sem er í list af ýmsu tagi hér á svæðinu. Öllum sem starfa við eða „dútla“ við list, hvaða nafni sem sú list nefnist, og hafa náð 18 ára aldri verður heimil þátttaka í félaginu. Við vonumst til að fá enn fleiri í félagið en þá sem tóku þátt í sýningunni Falið afl og gaman væri að fá alla þá sem eru enn í felum með sína list til að slást í hópinn með okkur. Við ætlum að láta að okkur kveða, vera sýnileg. Ýmsar hugmyndir eru upp á borðum um það starf sem við viljum fara í og er það ekki einskorðað við Vökudaga,“ segir Smári.
Í samþykktum fyrir hið nýja félag segir m.a. að tilgangur félagsins sé að efla kynni og stuðla að samvinnu listamanna á Akranesi, m.a. með sýningahaldi. Þá skuli efla umræðu um list og auka þekkingu og fræðslu. Loks er markmið félagsins að efla vitund bæjarbúa um þá miklu grósku sem er í list á Akranesi.
Styrkur kominn í hús
„Eftir sýninguna Falið afl var sett í gang umsóknarferli um styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að standa fyrir stórum viðburði næsta haust, en ekki er búið að ákveða hvenær það verður,“ segir Smári. Auk hans komu að þeirri umsókn þær Edda Agnarsdóttir og Borghildur Jósúadóttir. Uppbyggingarsjóður hefur veit verkefninu styrk upp á 400 þúsund krónur og var honum úthlutað síðastliðinn föstudag. „Þessi styrkur gefur okkur gott start til að gera verkefnið sem best úr garði. En betur má ef duga skal. Fyrirtæki og stofnanir á Akranesi og nágrenni eiga eftir að verða fyrir áreiti af okkar hálfu í formi beiðna um styrki til verkefnisins. Fjölmörg fyrirtæki styrktu seinasta verkefni og erum við mjög þakklát fyrir það. Grasrótarstarf af þessu tagi á erfitt með að þrífast án þess að nærumhverfið komi að og styðji við bakið á því. Það má segja að félagið sé í startholunum núna en eins og áður sagði erum við í stjórninni stórhuga og hlökkum til að vinna með þeim sem ganga til liðs við félagið á næstunni við að móta félagið og vinna því sess í okkar nærumhverfi.“
Stofnuð verður Facebook síða fyrir félagið undir nafninu Listfélag Akraness. Verður hún kynnt þegar hún verður komin í loftið. Kynningarfundur og inntaka félaga verður svo eins og fyrr segir í sal Brekkubæjarskóla fimmtudaginn 26. janúar klukkan 20.00, gengið inn frá Vesturgötu. Þangað eru allir velkomnir.